Færsluflokkur: Ferðalög
19.10.2008 | 04:31
Góðan daginn Bangkok
Halló allir,
þriðja 20 tíma vaktin að baki, vélin enn og aftur biluð og fólk orðið ansi lúið... en okkur er engin vorkunn, við erum komin til hinnar stórskemmtilegu borgar; Bangkok. Hér búa 11 milljónir manna en landið sjálft telur hátt í 65 milljónir.
Það merkasta sem hér má sjá er að sjálfsögðu Grand Palace og þar hjá "hús Emerald Búdda". Hér má líka finna "Damnoen Saduak" eða "fljótandi markaði" þar sem verslun og viðskipti fara fram á milli báta.
Hótelið okkar Millennium Hilton Bangkok er ævintýralegt. Hér er allt til alls og við horfum agndofa á. Hótelið stendur við "River of Kings" og hér má ferðast á "strætó bátum" milli staða. Handan við ána má finna markaði, spa stofur og auðvitað verslunarmiðstöð, en hér er afar hagstætt að versla (eða var það allavega áður en Ísland hrundi).
Í dag er förinni heitið um markaði borgarinnar og örugglega leitað að alvöru thai nuddi. Reyndar var kóarafíflið ekki með á nótunum frekar en fyrri daginn og missti því af hittingnum. Það bíða því skemmtilegar sögur um ævintýri dagsins næstu bloggfærslu.
Bestu kveðjur heim frá Thailandi,
ICE1440
Ps. myndir frá Sydney eru komnar inn á myndasíðuna.... kíkið endilega á kóalabirnina :-)
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 05:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2008 | 12:19
Bangkok á morgun...
Síðasti dagurinn okkar í Sydney er liðinn. Í upphafi dags fóru snillingarnir 3; Baldvin, Orri og Júlli flugvirki (með Júlla fremstan í flokki) út á flugvöll, gerðu sér lítið fyrir og "splæstu" vélinni í gang á ný. Ekki ónýtt að hafa svona karlmenn með í för, það ætti að vera til einn slíkur á hverju heimili. Á meðan á þessu stóð vorum kokkarnir knáu að undirbúa veitingar morgundagsins. Þvílíkir gæðakokkar. Það ætti líka að vera til einn slíkur á hverju heimili.
Annars áttum við áhöfnin mjög skemmtilegan dag. Við fórum í wild life park og fengum að skoða ýmis "native" dýr héðan frá Ástralíu, s.s. Dingos, Krókódíla, leðurblökur og ýmis miður geðsleg skriðdýr. Hápunkturinn var þó að fá að knúsa kóalabirni og kengúrur en reyndar höfðu sumir meiri áhuga á knúsinu á meðan aðrir skemmtu sér frekar yfir kengúrupungum.
Að loknu þessu ævintýri fórum við að skoða ólympíuþorpið hér í Sydney, eins og flestir muna þá voru leikarnir hér í borg árið 2000. Þessar byggingar eru stórkostleg mannvirki.
Kvöldið endaði svo á dýrindis máltíð, sumir fengu naut, aðrir salat en töffararnir í áhöfninni... Berglind, Nína, Orri og Jónas fengu sér kengúru sem smakkaðist gríðarlega vel.
En nú skal haldið á stefnumót við draumana. Bangkok eldsnemma í fyrramálið með örstuttu eldsneytisstoppi í Darwin (norður ástralíu).
Góða nótt kæru vinir (eða kannski góðan dag til ykkar),
ICE1440
ps. minnum á að verið er að dæla inn myndum á Fotki síðuna okkar sem finna má undir "Tenglar" og "myndir".
Ferðalög | Breytt 19.10.2008 kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2008 | 22:10
Myndir....
Viljum benda á "myndalinkinn" hér til vinstri. Blog.is kerfið afar hægt þannig að við stofnuðum fotki síðu.
Veljið "myndir" undir "Tenglar" hér til hliðar og nú fer þetta vonandi að ganga hraðar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2008 | 22:02
Sydney....
Önnur erfið vakt að baki og við komum "down under" í fyrradag. Eins og vanalega er áhöfnin samt hress, sumir þó hressari en aðrir. Kóaradýrið var komið á vara vara batteríin við lendingu í Sydney en aðrir áhafnameðlimir fóru í fæðuleit eins og öðrum dýrum sæmir. Endaði það með pizzuveislu inni á herbergi.
Gærdagurinn hófst á peningaþvætti. Höfðum við talsverðar áhyggjur af kreditkortunum okkar eftir komment frá allra þjóða manneskjum um íslenska efnahagskerfið. Ó já, fréttinar eru komnar hingað til Ástralíu. Þótti okkur því gæfulegra að skipta beinhörðum peningum enda hafa verslunargenin ekki gufað upp og var því eitt og annað keypt.
Að loknu búðarrápi (aðallega þó window shopping) hófust túristaleikir. Við byrjuðum á að fara upp í sjónvarpsturninn og virða fyrir okkur borgina. Síðan fengum við okkar eigin einkabílstjóra, ættaðan frá Kína, sem keyrði með okkur um borgina og sýndi okkur "bjúldings" (sem sagt byggingar) á milli þess sem hann sagði "yeahhh" 1000 sinnum.
Bílstjórinn stóð sig, við fengum skemmtilega leiðsögn um borgina, sáum auðvitað óperuhúsið og brúna frægu, fallegar kirkjur, fórum síðan á Bondí beach og stoppuðum á ansi skemmtilegum sushi stað. Auk þess var komið við hjá Nicole Kidman en hún var ekki heima.
Að loknum bílrúnti var ferðinni heitið að Circular Quay þar sem við fórum um borð í ferju "Captains Cook". Fengum við þar að sjá borgina með öðrum hætti á meðan við gæddum okkur á þrírétta máltíð við sólarlag.
Túristaleik dagsins lauk um kvöldmatarleytið hér í Ástralíu, og við enduðum daginn á að kaupa okkur fína hatta, kóalabangsa og póstkort. Að því loknu var gengið upp á hótel og má því segja að við séum búin að sjá borgina með öllu tegundum farartækja, flugvél, skipi, bíl og tveimur jafnfljótum.
Í dag stendur til að fara í annan bíltúr með Kínverjanum góða. Ferðinni er heitið í Blue Mountains þar sem við fáum að kynnast áströlsku "wildlife", dölum, gilum, fossum og regnskógum. Mest hlökkum við þó til að knúsa kóalabirni og spjalla við kengúrur.
Myndir koma hægt og rólega inn eins og þið hafið tekið eftir. Öll erum við með myndavélar en þetta blog.is er að gera okkur vitlaus sökum hægagangs við niðurhal. En þetta kemur allt með kalda vatninu.
Bestu kveðjur til ykkar allra,
ICE1440
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2008 | 08:20
Finding Nemo
Dagur 3:
Við sitjum hér í ljósaskiptunum á Tahiti og njótum fegurðarinnar. Dagurinn hefur verið yndislegur, sól,sjór og snorkling. Fyrir hádegi fórum við að sigla á kajökum og erum orðin mjög góð í því. Við erum líka búin að finna Nemó og Dóru og alla þeirra vini. Kolla er með myndavél sem hægt er að taka á myndir neðansjávar og eru myndirnar og fegurðin ólýsanleg.
Okkur líður voða vel saman og localhumorinn er að byggjast upp. Róaðu þig í rólunni...það er fullt tungl...tökum bara facebook á þetta...hvar er sturtan....gríslingur....do u wanna massage...
Annars er eyjan sjálf falleg og skógi vaxin upp til fjalla. En hér er dýrara að vera en í Reykjavík og kostar kókdós í minibarnum eittþúsund ísl krónur. Karlkynsþjónarnir hérna á hotelinu eru flestir í hinu liðinu, með sítt hár sett upp í hnút með blóm bak við eyrað og mjaðmahreyfingar eftir því. Við reynum að setja inn myndir við fyrsta tækifæri.
Kv fi1440
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.10.2008 | 12:14
Loks komin til Tahiti!
Jæja jæja þá erum við loks komin til Tahiti. Ferðin að heiman hefur aðeins tekið á þar sem vaktin okkar til Los Angeles tók okkur 20 tíma. Vegna mikillar þreytu höfðum við ekki orku í að blogga neitt í gær. Í morgun eða hvenær sem það var, lögðum við í hann til Tahiti via Honolulu. Sú ferð gekk reyndar ekki snurðulaust heldur þar sem við vorum aftur tæpa 20 tíma á vaktinni. Við erum auðvitað geðveikt hress núna.... Það er ekki alveg á hreinu hvað klukkan er eða hvaða dagur er. Við erum þó sæl núna komin á hotel með gylltan vökva í hönd og drekkum rósadögg af glasi.
Vélin hefur bilað óvenjulega oft eða samtals fimm sinnum. Júlli flugvirki hefur því unnið vel fyrir sínu með dyggri aðstoð Orra flugstjóra sem er multitalented með meiru! Greinilega engin tilviljun að Baldvin valdi Orra, sá greinilega fyrir að hann væri eitthvað miklu meira en góður flugstjóri. Strákurinn kann á tólin í verkfærakassanum.
Kokkarnir Bassi og gríslingurinn Jónas hafa gert góða hluti fyrir farþegana og okkur, þegar við loksins fáum að borða :-) Í það minnsta voru fararstjórarnir mjög ánægðir með okkur. Mont Mont....
Vegna óvenju mikilla anna var hringt inn í flugstjórnarklefa og beðið um aðstoð. Kannski ekki alveg satt en Ragnheiður nokkur Guðjónsdóttir ( fyrrverandi flugstýra) hefur ekki verið ónýt sem aftureldhússtýra og var alla matarþjónustuna í eldhúsinu að reiða fram mat og hella Jameson yfir ís. Þetta er að valda henni verulegu hugarangri hvort hún eigi að verða flugfreyja eða reyna við flugstjórann næsta sumar:-)
TIl að skýra nánar frá málavöxtum hér á suðurhveli þá mætti Axel ekki á barinn sökum anna þar sem hann ætlaði ALLS ekki að mæta á sundlaugarbarminn dökkhærður, þar sem heillitun er IN hér á Tahiti. Má því ætla að hann sé núna í AFlitun og plokkun!!
Eini tveggja stafa limurinn hefur staðið sig eins og hetja og erum við stolt af henni, hún fær ekki göngustaf sem fann þriðja!! Hrafnhildur Proppe er búin að vera æðisleg.
Eins og sést þá elskum við hvert annað og eins og þau sögðu á Hard Rock (Harða Steini) Love all, serve all :-)
Við hinar sem ekki hafa komist að í kvöld, segjum eins og Jóhanna, OKKAR TÍMI MUN KOMA!
Kveðja FI 1440
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2008 | 23:53
2 dagar til stefnu...
Ferðalag áhafnar ICE 1440 hefst eftir 2 daga, nánar tiltekið 10. október kl 06:00. Upphafspunktur er Los Angeles, USA.
Hópurinn er orðinn verulega spenntur og upphitun var tekin í kvöld í Lækjasmáranum hjá aðstoðarflugmanninum. Þar átum við á okkur gat, þurfum nefnilega að safna forða sökum óhagstæðs gengis... þetta verður "McDonalds around the world".
Á morgunn verða allir að sinna mikilvægum verkefnum.... flugstjórarnir fara yfir fyrsta flugplanið, cabin crew ætlar til KEF að skoða TF-FIS, flugvirkinn leggur loka blessun á vélina, kokkarnir fara í startholurnar með glæsiveitingar og kóarinn..... já hún ætlar í klippingu :-)))
Við hlökkum til að leyfa ykkur öllum að fylgjast með þessu ævintýri.
Góðar stundir,
Baldvin, Orri, Raggý, Hrafnhildur, Axel, Kolla, Nína, Auðný, Berglind, Júlíus, Bassi og Jónas.
Ferðalög | Breytt 8.10.2008 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Um bloggið
Crew 1440
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar